Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1116. Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá 3. minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Frumvarp þetta um stjórn fiskveiða hefur verið alllengi til meðferðar í nefndinni. Lítt hefur það þó verið rætt í nefndinni fyrr en nú síðustu daga. Ekki er ljóst hver ástæða þess er, önnur en sú að aldrei hefur verið augljósara en nú að mjög svo takmarkaður hluti alþingismanna, og reyndar einnig almennings í landinu, er hlynntur þeirri helstefnu sem kvótastefna dávaldsins úr Framsóknarflokknum, Halldórs Ásgrímssonar, er.
    Nú virðist sem betur fer að augu enn fleiri þingmanna og almennings hafi opnast fyrir þeirri gegndarlausu miðstýringu og valdníðslu sem þessi helstefna hefur haft í för með sér, ekki hvað síst gagnvart mörgum byggðarlögum á landsbyggðinni sem orðið hafa þessum móðuharðindum af manna völdum að bráð.
    Ekki þarf að taka fram að undirritaður hefur allt frá upphafi verið andvígur því einveldi og þeirri miðstýringu sem sjávarútvegsráðherra hefur verið veitt með samþykkt laganna um stjórn fiskveiða allt frá 1984 og valdið hefur mörgum byggðarlögum og þar með þjóðinni allri ómældu tjóni og röskun.
    Það vekur hins vegar mikla athygli að á síðustu dögum við meðferð málsins í nefndinni hefur komið fram svokallað ráðherragengi sem hefur beitt sér fyrir grundvallarbreytingum á frumvarpinu eins og ráðgjafarnefndin gekk frá því, og einnig frá því að málið var rætt í þingflokkum þeim sem kallaðir eru stjórnarþingflokkar.
    Þessi grundvallarbreyting ráðherragengisins á frumvarpinu, sem miðar að því að taka upp veiðileyfasölu og auðlindaskatt, er slík að undrun vekur. Í huga undirritaðs verður svona grundvallarbreyting ekki skýrð á annan veg en verið sé með pólitísku „plotti“ að framlengja líf ríkisstjórnarinnar og hafa að vettugi heill og hamingju íslensku þjóðarinnar.
    Við afgreiðslu málsins haustið 1987 bar undirritaður fram breytingartillögur sem allar miðuðu að því að draga úr alræðisvaldi sjávarútvegsráðherra og gera kerfið mannlegra. Allar þær tillögur voru felldar og þeir, sem að því stóðu, bera því mikla ábyrgð.
    Eins og málið kemur nú fyrir deildina mun undirritaður freista þess að ná fram breytingum til hins betra og flytja eða fylgja breytingartillögum þar að lútandi.
    Rétt þykir í lokin að fram komi vegna bókunar þeirrar sem þingflokkur Alþýðuflokksins gerði varðandi frumvarpið um stjórn fiskveiða að undirritaður, sem er andvígur bókunni, sat ekki þann þingflokksfund frekar en aðra fundi þingflokksins undangengna mánuði, en til þess liggja ýmsar ástæður. En þar sem ljóst er að þingflokkur Alþýðuflokksins hefur lýst stuðningi við breytingartillögur 1. minni hl. nefndarinnar við frumvarpið og lítur svo á að með þeim sé komið til móts við sjónarmið þingflokksins telur undirritaður rétt að birta þessa bókun frá 23. apríl sl. sem fylgiskal með nefndarálitinu. Sighvatur Björgvinsson, 5. þm. Vestf., lagði til að afgreiðslu málsins yrði frestað.

Alþingi, 30. apríl 1990.


Karvel Pálmason.





Fylgiskjal.


Stefnan í kvótamálinu.


(Bókun þingflokks Alþýðuflokksins, 23. apríl 1990,


um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.)



    Þingflokkur Alþýðuflokksins vísar til og ítrekar bókun Eiðs Guðnasonar fulltrúa þingflokksins í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu sem lögð var fram við starfslok nefndarinnar 26. janúar 1990.
    Þingflokkurinn bendir á að hætt er við mótsögn milli þess ákvæðis 1. gr. frumvarps til laga um stjórn fiskveiða þar sem segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“ og þeirrar framkvæmdar sem 7. gr. frumvarpsins og ákvæði til bráðabirgða II gera ráð fyrir að höfð sé við úthlutun veiðiheimilda. Þingflokkurinn sér því sérstaka ástæðu til að taka undir og leggja ríka áherslu á það sem segir í athugasemd um 1. gr. frumvarpsins, en þar segir: „Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskistofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim, sem daglega starfa að fiskveiðum, víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum, má það ekki verða til þess að með því verði talið myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. (Lbr. þfl.) Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“
    Besta leiðin til að leysa þennan vanda er að leigugjald komi fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind.
    Það er álit þingflokks Alþýðuflokksins að æskilegt hefði verið að taka nú ákvörðun um að taka upp í áföngum á tímanum fram að aldamótum leigugjald fyrir afnot veiðiheimilda og feta sig þannig inn í fyrirkomulag sem væri í eðlilegustu samræmi við þá grundvallaryfirlýsingu 1. gr. frumvarpsins að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þá bendir þingflokkurinn á að nauðsyn beri til að rjúfa tengslin milli skipa og veiðiheimilda til þess að unnt verði að taka tillit til byggðasjónarmiða og ná fram aukinni hagkvæmni í útgerð. Um þessi atriði hefur því miður ekki tekist nægileg samstaða í sjávarútvegsnefnd efri deildar.
    Með tilliti til þessa getur þingflokkurinn þó fyrir sitt leyti fallist á þá málamiðlun að byggja lausn málsins á frumvarpi til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem einnig er til meðferðar í nefndinni. Hlutverk sjóðsins verði víkkað og nafni hans breytt í samræmi við það. Lagt er til að hann verði nefndur Aflasjóður. Aflaheimildir, sem sjóðurinn eignast, selur hann á leigu til hæstbjóðanda eða beitir til byggðajöfnunar. Auk þeirra veiðiheimilda, sem Aflasjóður eignast við kaup á skipum til úreldingar, fái sjóðurinn til ráðstöfunar 10% af úthlutuðum veiðiheimildum fyrsta fiskveiðiárið samkvæmt lögunum.
    Þetta kemur að nokkru til móts við þau sjónarmið þingflokksins að leigugjald verði tekið fyrir afnot veiðiheimilda og auðveldar einnig að bregðast við staðbundnum byggðavandamálum sem upp kunna að koma vegna sölu fiskiskipa úr sjávarútvegsbyggðum. Það er skoðun þingflokksins að á næstu árum eigi að stefna að því í áföngum að rjúfa tengslin milli skipa og veiðiheimilda þannig að Aflasjóður fái auknar veiðiheimildir til ráðstöfunar. Þingflokkurinn
telur eðlilegt að ákvæði frumvarps til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa verði felld inn í frumvarpið um stjórn fiskveiða enda eiga þau þar heima eftir eðli máls.
    Þingflokkurinn styður tillögur frumvarpsins um rýmkun reglna um framsal veiðiheimilda frá því sem nú er, en er andvígur þeirri takmörkun á framsali veiðiheimilda, sem felst í því að skip þurfi að hafa sams konar veiðiheimild fyrir til þess að geta tekið við þeim af öðrum.
    Þingflokkurinn telur eðlilegt að eftirlit með framkvæmd laganna verði fært frá sjávarútvegsráðuneyti til sérstakrar stofnunar er annist m.a. skráningu veiðiheimilda, skráningu og öflun upplýsinga og almennt veiðieftirlit. Sérstök nefnd hlutlausra aðila úrskurði um upptöku ólögmæts sjávarafla. Sjávarútvegsráðuneytið gefi hins vegar eftir sem áður út sjálfar veiðiheimildirnar. Ljóst er að þessari breytingu fylgir nokkur kostnaðarauki frá því sem nú er. Eðlilegt er að þeir, sem njóta veiðiheimildanna, standi straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst.
    Endurskoðun laga um upptöku ólögmæts sjávarafla er nauðsynleg að mati þingflokksins.
    Þá leggur þingflokkurinn til að inn í 1. gr. laganna verði felld þau efnisákvæði úr athugasemdum við 1. gr. þar sem segir að enda þótt frumvarpið byggist á því að fiskistofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim, sem daglega starfa að fiskveiðum, víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum, megi það ekki verða til þess að með því verði talið myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni.
    Það er enn fremur álit þingflokksins að nauðsynlegt sé að í lögunum komi skýrt fram að breyting á þeim leggi ekki skaðabótaskyldu af neinu tagi á ríkissjóð.
    Það er skoðun þingflokks Alþýðuflokksins að brýnt sé að kanna áhrif laganna um stjórn fiskveiða á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Það verkefni mætti fela sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands sem jafnframt gerði úttekt á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða og hagkvæmni þeirra.
    Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða mun þingflokkurinn veita málinu brautargengi á Alþingi og stuðla að samþykkt þess fyrir þinglausnir.